Kvíði

Kvíði er náttúrulegt viðbragð líkamans við hræðslu og er eðlileg tilfinning sem allir upplifa einhvern tímann í lífinu. Allskonar aðstæður geta vakið upp kvíða eins og til dæmis þegar maður fer í nýjar aðstæður eða talar fyrir framan mikið af fólki. 

Hjálplegur kvíði

Kvíði er byggður í okkur sem einhvers konar viðvörunarkerfi þar sem hann lætur okkur vita ef hætta er til staðar og hjálpar okkur að bregðast við hættu eins og ef það kviknar í eða það er ráðist á okkur. Kvíði getur líka hjálpað okkur í aðstæðum eins og þegar við erum að fara í próf eða atvinnuviðtal. Hjálplegur kvíði gerir okkur meira vakandi, bætir einbeitingu og hjálpar okkur til að vera tilbúin að takast á við krefjandi aðstæður.

Óhjálplegur kvíði

Óhjálplegur kvíði er þegar kvíðinn er orðinn það mikill að hann er farinn að trufla daglegt líf. Dæmi um einkenni eru hraður hjartsláttur, andþyngsli, hröð öndun, fiðrildi í maganum, sviti, skjálfti og máttleysi.

Það er misjafnt hvaða einkennum fólk finnur fyrir en mikill óhjálplegur kvíði getur gert það að verkum að fólk forðast ákveðnar aðstæður eða samkomur sem getur leitt til félagslegrar einangrunar og skerðingar á almennum lífsgæðum.


Kvíði og þroskahömlun

Einkenni kvíða geta birst öðruvísi hjá fólki með þroskahömlun. Fólk með þroskahömlun getur átt erfitt með að tjá tilfinningar sínar og hugsanir og þar að leiðandi bera kennsl á og segja frá kvíðaeinkennum. Samt sem áður getur kvíði haft veruleg áhrif á líf einstaklinga með þroskahömlun og er mikilvægt að vera meðvitaður um einkenni kvíða.

Dæmi um algeng kvíðaeinkenni hjá fólki með þroskahömlun:
  • Aukinn pirringur eða eirðarleysi
  • Sjálfskaðandi hegðun
  • Líkamleg einkenni eins og höfuðverkur eða magaverkur
  • Breyting á matarlist
  • Breyting á svefni
  • Erfiðleikar við athafnir daglegs lífs
  • Árásargirni
  • Krefjandi hegðun