Þunglyndi
Þunglyndi er geðröskun sem einkennist af viðvarandi depurð, vonleysi og áhugaleysi og minni gleði yfir hlutum sem einu sinni veittu okkur ánægju. Þunglyndi er meira en bara almenn depurð og er alvarleg geðröskun sem getur haft mikil áhrif á daglegt líf.
Einkenni geta verið mjög mismunandi milli fólks en dæmi um algeng einkenni eru:
- Viðvarandi depurð og/eða vonleysi
- Áhugaleysi/ánægjuleysi
- Breyting á matarlist og þyngdaraukning eða þyngdartap
- Breyting á svefni, erfiðleikar með svefn eða mjög mikill svefn
- Þreyta eða orkutap
- Erfiðleikar við að einbeita sér eða taka ákvarðanir
- Hugsanir um dauðann eða sjálfsvíg
Þunglyndi og þroskahömlun
Einkenni þunglyndis geta birst á annan hátt hjá einstaklingum með þroskahömlun. Þeir geta einnig átt erfitt með að tjá tilfinningar sínar og einkenni og því oft einnig erfiðara að greina þunglyndi. Einstaklingar með þroskahömlun gætu verið líklegri til að þróa með sér þunglyndi til dæmis vegna einangrunar og minni þátttöku í samfélaginu eða vegna misnotkunar, ofbeldis eða vanrækslu.
Dæmi um einkenni þunglyndis hjá fólki með þroskahömlun:
- Áhugaleysi eða ánægjuleysi
- Breyting á matarlist og þyngdaraukning eða þyngdartap
- Breyting á svefni, erfiðleikar með svefn eða mjög mikill svefn
- Aukinn pirringur
- Árásargirni
- Sjálfskaðandi hegðun
- Höfuðverkur
- Magaverkur
- Erfiðleikar í samskiptum
- Afturför á færni
